Gamall haus


Skólagarður Reykjavíkur tekur til starfa 1948 - Norræni skjaladagurinn 2021

Skólagarður Reykjavíkur tekur til starfa 1948

 

Í kjölfar bréfs Jónasar B. Jónssonar fræðslufulltrúa hófst umræða hjá Fræðsluráði Reykjavíkur sem ákvað hinn 13. maí 1948 að gera tilraun með skólagarð fyrir börn og unglinga. Einar B. Malmquist ræktunarráðunautur leiddi verkefnið og sendi borgarstjóra greinargerð að hausti hvernig til tókst. 
Samkvæmt greinargerð ræktunarráðunaut voru 68 börn innrituð og hófst skólagarðyrkjustarfið 5. júní sama ár. Fyrst og fremst var lögð áhersla á kartöfluræktun og var börnunum gert að annast hana í sameiningu. Börnin voru á aldrinum 10 ára til 14 ára og komu flest úr Austurbæjarskólahverfi og Laugarnesskólahverfi. 

 

Nýjung í kennslu Reykjavíkurbarna

Námið í skólagarði Reykjavikur miðaðist fyrst og fremst við verklega fræðslu og að nokkru bóklega.

Sérstök áhersla var lögð á að vekja og örva áhuga nemenda á fegrun bæjarins og nytsemi ræktunar til aukinnar menningar og vetri afkomu landsmanna til þess að gefa börnum nokkra innsýn í gróðurríkið m.a. með flórukennslu.

Þá var hverjum nemenda úthlutaður 24m2 reitur sem þeir önnuðust sjálfir og fengu þeir að rækta hvítkál, grænkál, spínat, salat, hreðkur ofl. grænmeti auk lítilsháttar af blómjurtum.

Þrír kennarar skiptu með sér verkum, Friðjón Júlíusson búfræðikandídat, Halldór Ó. Jónsson garðyrkjufræðingur og Ingimar Jónsson barnakennari. Börnunum var skipt í flokka og hver flokkur starfaði tvisvar í vikur 2 stundir í senn. Kennslan fór eingöngu fram seinni hluta dagsins eða milli 15-19. Meðalstundafjöldi hvers nemanda var 90 stundir. 

 

Auglysing_skolagardur_1948
Mynd: Auglýsing fyrir skólagarð 1948.

 

Við lok skólatímans voru nemendum gefnar einkunnir fyrir starfið og gefið eftir ástundun og verklagni. Hlutu flest börnin mjög góðan vitnisburð. Þá var kannað álit foreldra og barna um hvernig til tókst og kom í ljós miklar vinsældir meðal foreldra og barnanna sjálfra sem óskuðu flest eftir því að mega halda áfram að vori komanda.

 

Spurningar_skolagardur_1948
Mynd: Spurningar til nemenda um álit þeirra á skólagarðinum 1948.

 

Reynslan þótti góð af þessari nýbreytni og taldi ræktunarráðunautur heppilegast að halda áfram á sömu braut með þeim breytingum að starfsemi yrði hafin allt að mánuði fyrr sem gæfi tilefni til fjölbreyttari ræktunar og betri árangurs af henni. Haldið yrði áfram með „reitarræktun“ sem skapaði hæfilegan metnað og ábyrgðartilfinningu nemendanna.  Að öðru leyti yrði kennslan með svipuðu sniði með örlítið aukinni bókfræðslu um ræktun og gróður.

 

Greinargerd_raektunarradunauts_1948
Mynd: Greinagerð ræktunarráunauts 1948

 

Að mati ræktunaráðunauts þóttu nemendur koma frá fyrirmyndarheimilum og skorti því nokkuð á að skólagarðarnir næðu að hafa uppeldisleg áhrif á börn þau sem helst þurfi þess með.

 

Heimild: BsR.. Fundargerðarbók Fræðsluráðs 1936-55. Aðfnr. 6271 A. Fundargerð 13. maí 1948. Bls. 34.
                BsR. Málasafn borgarstjóra. Aðfnr. 3307. Askja 141.
                BsR. Málasafn borgarstjóra. Aðfnr. 3307. Lausleg greinargerð yfir starfsemi Skólagarða Reykjavíkur 1948, 30. september 1948. Askja 141.

Höfundur: Kristín Fjóla Fannberg

 

Share

Til baka...