Gamall haus


Sauðfjárbúskapur eða garðrækt? - Norræni skjaldagurinn 2021

Þetta olli hagsmunaárekstrum og deilum á milli milli Fjáreignarfélags Reykjavíkur og Garðræktar- og skógræktarfélagsins í Reykjavík. Bændasamfélagið var ennþá í hávegum haft og talin sjálfsögð mannréttindi að vera með sauðfjárbúskap innan bæjarlands Reykjavíkur. Í mörgum tilfellum var sauðfjárbúskapur einungis tómstundargaman, en einhverjir höfðu af þessu atvinnu. Á sama tíma varð garðrækt sífellt vinsælli í úthverfum bæjarins. Helsta deiluefnið var að sauðfé átti það til að brjótast inn í ræktunargarðana, þrátt fyrir öflugustu girðingar og borða gróðurinn sem verið var að rækta.

 

Árið 1952 komst í hámæli að banna ætti sauðfjárrækt í borginni, eftir algjöran niðurskurð fjárstofnsins vegna mæðiveiki sem komið hafði upp. Í framhaldinu óskuðu garðræktendur eftir því að sett yrði bann við sauðfjárrækt í bæjarlandinu, sem ekki varð úr að sinni.

 

Fjáreignarfélag Reykjavíkur mótmælti þessu og hélt fjölmennan fund árið 1952:

 

Sauðfjáreign væri aðalatvinnugrein nokkurra manna í lögsagnarumdæminu, þar að auka tómstundarvinna margra, sem hafa haft nokkrar kindur sér til ánægju og hagsbóta, og verðum við að líta svo á, að réttur þessara þegna bæjarsamfélagsins til að þjóna þessu hugðarefni sínu hljóti að vera nokkur, og þar sem bæjarfélagið leggur nokkuð af mörkum til ýmissa sérfélaga og samtaka, sem flest eru til skemmtana, þá treystum við því, að bæjarráð og bæjarstjórn líti á þessi áhuga- og hagsmunamál okkar með velvild og skilningi, enda er sauðfjáreign hjá þessum mönnum mikið búsílag og miklu meira virði hverju heimili, en kemur fram í greinargerð ræktunarráðunauts bæjarins.

 

Motmaeli_fjareigenda_1952
Mynd: Mótmæli Fjáreigendafélags Reykjavíkur 1952

 

Bæjarstjórn ákvað hins vegar að banna ekki fjárbúskap í bæjarlandinu. Talið var að sauðfjárrækt myndi leggjast sjálfkrafa af. Sú var hins vegar ekki raunin. Árið 1962 skrifuðu Skúli Sveinsson og Hafliði Jónsson grein, þar sem bent var á að banna þyrfti sauðfjárhald í Reykjavík. Í greininni kom fram að,

 

Fæstir sáu það fyrir að sauðkindur kæmu til með að verða tómstundarsport manna í Reykjavík, og tala sauðfjár í lögsagnarumdæmi borgarinnar yrði hærri, en í flestum tilfellum þeim byggðarlögum landsins, þar sem landbúnaður er aðalatvinna búendanna. Nú er þó komið, að í Reykjavík og nærliggjandi sveitum, er orðið fleira sauðfé í afrétti, en það hefur nokkru sinni áður verið frá fyrstu tíð, en jafnfram haglendið aldrei verið minna, sökum þess hve mikið afréttarlandinu hefur verið friðað og tekið til annarra nota en beitar fyrir búfé.

 

Motmaeli_gardeigenda_1966
Mynd: Mótmæli Félags garðyrkjumanna 1966


Borgaryfirvöld tóku þetta mál fyrir á fundi þann 23. október 1966, en þar samþykkti Borgarráð að fella úr gildi öll leyfi til sauðfjárhalds í Reykjavík, frá og með 1. október 1967.

 

Undanskilin voru leigulönd Fjárræktarvélags Reykjavíkur, í Hólmi (Bakkakoti), Engi og Gufunesi.

Afrettarland_1952
Mynd: Afréttarland á höfuðborgarsvæðinu 1966.

 

Heimildir: BsR. Málasafn borgarstjóra. Sauðfjárhald 1948-1967. Askja 910.

Höfundur: Margrét Hildur Þrastardóttir 

Share

Til baka...