Flórugarðar - Norræni skjaladagurinn 2021
Flórugarðar
5. janúar 1948 skrifar Jónas B. Jónsson fræðslufulltrúinn borgarstjóranum í Reykjavík bréf þar sem þeirri staðreynd lýst að umgengni barna um hirta bletti og garða hér í bæ væri næsta bágborin, svo nú væri ekki tekið dýpra í árinni. Sumir hinna nýrri leikvalla með grasblettum og blómabeðum þar sem ætlast var til að börn lærðu að umgangast blómin þar sem þau væru að leikjum sínum virtust engan árangur hafa borið.
Leggur hann til þá hugmynd að setja upp skólagarða til þess að auka þekkingu og glæða áhuga barna og unglinga fyrir gróðri og ræktun. Virtust honum tvær leiðir færar. Önnur væri sú að hafa garð við hvern barnaskóla bæjarins. Hin væri sú að hafa einn garð fyrir allan bæinn. Hann tekur reyndar fram í bréfinu að að hann hafi aldrei séð slíka grða erlendis og ræði því þetta mál hér ekki af neinni reynslu. Þeir einu garðar, sem hann hafi séð við skóla erlendis, væru hinir svokölluðu „Flóru“garðar.

Mynd: Bréf Jónasar B. Jónssonar fræðslufulltra Reykjavíkur til borgarstjóra um skólagarða
Efla menningu og snyrtibrag bæjarins
29. janúar 1948 skrifar Einar B. Malmquist ræktunaráðunautur greinargerð viðvíkjandi barnaskólagörðum. Í greinargerðinni fjallar hann um sögu skólagarða erlendis, byrjunarstig og þróun þessa menningarmáls í nokkrum löndum. Reynsla þeirra hafi sýnt að æskulýður fái meiri áhuga fyrir ræktun, meiri andlegan þroska undir lífsstarf sitt og verði léttara að nema náttúrufræði. Skólagarðurinn dragi úr göturápi unglinga og veki þá fremur til menningarlegra hugsjóna. Garðurinn sé heilsulind. Verklagni og vinnuafkost margfaldist hjá börnunum við starf þeirra í skólagörðunum.
Allir þeir sem hafi með fræðslu og uppeldi unglinga að gera hvort heldur kennarar eða foreldrarnir sjálfir muni vera sammála um að hér sé aðkallandi verk sem vegna stærð bæjarins, staðhátta þjóðarinnar ofl. þarfnast framkvæmda. Foreldar sem eigi efnileg börn á aldinum 10-13 ára og hafa ekki tækifæri til að senda þau á góð sveitaheimili þurfi að fá aðstöðu til að hafa þau í slíkum stofnunum sem skólagarðarnir eru.
Það sé foreldrum áhyggjuefni að geta ekki látið börn sína vera annars staðar en á götunni eða við ómerkileg innistörf yfir bjartasta sumartímann. Þá fjallar hann um staðarval barnaskólagarða, stærð og hvernig starfrækslu og kennslu skuli háttað.
Að lokum telur ræktunarráðunautur að takist í náinni framtíð að vekja og glæða áhuga efnilegra barna á fegurð og yndisleik gróðursins sé ómetanlegt starf unnið í þágu bæjarins og allra landsbúa.
Hér má sjá greinargerðina (Athugið að síðu 2 vantar í hana):

Mynd: Greinagerð Einars B. Malmquist . Bls. 1.

Mynd: Greinagerð Einars B. Malmquist . Bls. 3.

Mynd: Greinagerð Einars B. Malmquist . Bls. 4.

Mynd: Greinagerð Einars B. Malmquist . Bls. 5.

Mynd: Greinagerð Einars B. Malmquist . Bls. 6.

Mynd: Greinagerð Einars B. Malmquist . Bls. 7.

Mynd: Greinagerð Einars B. Malmquist . Bls. 8.

Mynd: Greinargerð Einar B. Malmquist. Bls. 9.
Heimildir: BsR. Málasafn borgarstjóra. Aðfnr. 3307. Bréf fræðslufulltrúa til borgarstjóra 5. janúar 1948. Askja 141.
BsR. Málasafn borgarstjóra. Aðfnr. 3307. Greinargerð ræktunarráðunauts 29. janúar 1948. Askja 141.
Ljósmynd: BsR. Úr einkaskjalasafni Jóns Þorlákssonar og Ingibjargar Claessein Þorláksson - E_191.
Höfundur: Kristín Fjóla Fannberg
Til baka... |