Gamall haus


Af erfðafestulöndum, mjólk og túlipana-étandi kindum - Norræni skjaladagurinn 2021

,,Jeg tel hvorki æskilegt og því síður nauðsynlegt að hafa á boðstólum ógerilsneidda mjólk, og engu fremur fyrir ungbörn og sjúklinga, nema síður sje.“

Héraðsdýralækni leist nú ekkert sérlega vel á tillögu landbúnaðarnefndar um framleiðslu ógerilsneiddar mjólkur fyrir börn Reykvíkinga þegar hann var inntur álits árið 1944. Þetta og ýmislegt fleira fróðlegt er að finna í greinargerð Björns Björnssonar frá 1946 þar sem teknir eru fyrir allir helstu flokkar landbúnaðar í bæjarlandi Reykjavíkur en á þessum tíma var Reykjavík að miklu leyti enn sveit, eða að minnsta kosti nátengd henni. Sauðfé var víða, bæjarbúar drukku mjólk sem kom úr kúm á svæðinu, stunduð var túnrækt og uppskerur úr matjurtagörðum og kartöflurækt ásamt töðufeng voru mikilvæg málefni í bæjarlífinu.

 

Landbunadarmal_i_Reykjavik_bls. 1
Mynd: Landbúnaðarmál í Reykjavík 1946

 

Í samantektinni er að finna ýmsar tölulegar upplýsingar sem varpa smá ljósi á aðstæður. Sem dæmi þá voru árið 1943 um 90 fjáreigendur í lögsagnarumdæmi Reykjavíkur og tala sauðfjár um 1330, þ.a. 2-300 hrútar og gemlingar. Það má því ímynda sér að það hafi talist sérstakt að kind yrði ekki á vegi manns á daglegum vettvangi.

Sama ár lögðu mjólkurframleiðendur í umdæminu 221 þúsund lítra af nýmjólk inn í samsöluna en um 507 þúsund lítrar voru í undanþágusölu beint til neytenda. Árið 1941 voru tölurnar enn hærri en þá voru um 270 þúsund lítrar lagðir í samsöluna en heilir 836 þúsund lítrar fóru beint til neytenda í gegnum undanþágusöluna. Á þessum árum féll fjöldi mjólkurkúa úr 322 í 195 og því greinilegt að mikið umbreytingaskeið var að eiga sér stað.

 

Erfðafestulönd

Mikið af landi bæjarins voru svokölluð erfðafestulönd þar sem leigutakar voru skyldaðir til að rækta landið. Árið 1930 voru slíkar jarðir um 306 talsins, samtals um 653,2 hektarar en árið 1941 virðast erfðafestulöndin hafa náð topp sínum eða 505 talsins, þó að flestir hektarar hafi farið undir slíkar jarðir árið 1934 eða 945,7 hektarar. Stærðir jarðanna voru mjög mismunandi og leiguverð á afar breiðu bili og virðist ekki hafa verið fylgni á milli stærðar eða gæða hvað það varðar. Hæsta gjald var yfir 200 kr. per hektara en sumstaðar fór gjaldið jafnvel undir 10 kr. per hektara. Leigutakar þessara landa þurftu einnig að eiga við ýmis konar ágang á land sitt  líkt og bréf Magnúsar Þorgeirssonar ber með sér en hann átti í stökustu vandræðum með kindur.

 

Þvottalaugablettur_bls_1
Mynd: Samningur bæjarstjórnar Reykjavíkur um erfðafestuland við Þvottalaugarnar - Bls. 1

 

Þvottalaugablettur_bls_2
Mynd: Samningur bæjarstjórnar Reykjavíkur um erfðafestuland við Þvottalaugarnar - Bls. 2

 

 

Thvottalaugablettur_Bls. 3
Mynd: Samningur bæjarstjórnar Reykjavíkur um erfðafestuland við Þvottalaugarnar - Bls. 3

 

Matjurtargarðar

Matjurtagarðar töldust 22 hektarar árið 1931 en voru orðnir um 40 hektarar árið 1940 en á millibilsárunum er talið að 45,6 hektarar hafi verið teknir til ræktunar fyrir matjurtir en sjálfsagt hafa einhverjir hektarar verið teknir til annarra þarfa á tímabilinu, svo sem undir byggingar.

 

Bref-Magnusar
Mynd: Bréf Magnúsar Þorgeirssonar varðandi ágang fjárs í matjurtargarðs hans.

Reykjavík á 4. og 5. áratugnum var því harla ólík þeirri borg sem við búum við í dag en ljóst að mikið líf og fjölbreytni hefur verið á svæðinu og sveitalífið enn haft sterk tök á samfélagi bæjarbúa.

 

Heimildir: BsR. Málasafn borgarstjóra. Askja 908. Landbúnaðarmál í Reykjavík. 1946.
                   BsR. Málasafn borgarstjóra. Askja 910. Bréf Magnúsar Þorgeirssonar. 1943.
                   BsR. E-20   

Ljósmynd: https://commons.wikimedia.org

Höfundur: Gyða Guðrún Magnúsdóttir Hlíðberg

 

Share

Til baka...