Giftar konur fá kosningarétt

Skrá frá 1908 yfir giftar konur í Reykjavík sem hafa heimild til að kjósa í bæjarstjórnarkosningum. Sjá má nöfn kvenna, aldur heimilisfang og nafn eiginmanns þeirra. Borgarskjalasafn Reykjavíkur: Skrá yfir giftar konur á kjörskrá 1908. Aðfnr. 1387.
Giftar konur í Reykjavík fengu kosningarétt í bæjarstjórnarkosningum árið 1908 og buðu strax fram sérstakan kvennalista í kosningum í febrúar það ár. Listinn fékk afar góðar viðtökur og fjórar konur náðu kjöri í bæjarstjórn. Kosningaréttur kvenna átti nokkuð langan aðdraganda á Íslandi eins og í fleiri löndum.
Árið 1882 fengu konur á Íslandi kosningarétt í fyrsta sinn. Sá réttur var hins vegar afar takmarkaður og gilti einungis um ekkjur og aðrar ógiftar konur sem voru 25 ára og eldri „sem áttu með sig sjálfar“, þ.e. áttu eignir og voru því skattgreiðendur. Þessi fámenni hópur hafði rétt til þess að kjósa í sýslunefnd, hreppsnefnd, bæjarstjórn og á safnaðarfundum, en kosningaþátttaka þeirra var afar dræm. Hins vegar nutu konur ekki kjörgengis, þ.e. höfðu ekki rétt til að bjóða sig fram í kosningum fyrr en árið 1902.
„Þegar hér var komið sögu var kvenréttindakonan Bríet Bjarnhéðinsdóttir orðin ekkja og þar sem hún var húseigandi fékk hún bæði kosningarétt og kjörgengi. Hún bauð sig ekki fram að sinni en hvatti konur í kringum sig til að kjósa með þeim árangri að stærri hópur kvenna kaus en áður hafði sést.“
Söguleg tímamót urðu í kvennabaráttunni árið 1907 er eiginkonur kjósenda í Reykjavík og Hafnarfirði kosningarétt og kjörgengi til bæjarstjórna og var sá réttur háður sömu skilyrðum og kosningaréttur karla. Á þessum tíma giltu sérstök kosningalög fyrir hvern kaupstað. Sökum mikils þrýstings frá kvennahreyfingunni beittu þingmenn þessara tveggja bæjarfélaga sér fyrir auknum kosningarétti kvenna sem varð til þess að hjólin tóku að snúast af krafti í kvennabaráttunni.
Í ársbyrjun 1908 ákváðu "fjórar forvígiskonur í kvenréttindafélögum í Reykjavík að stofna kvennaframboð og bjóða sig fram til bæjarstjórnar Reykjavíkur. Framboðið var ákveðið með einungis tveggja vikna fyrirvara, en á móti kom að kosningaherferð þeirra var mjög skipulögð." Kvennaframboðið vann glæsilegan kosningasigur og náðu allir fulltrúar þess kjöri í bæjarstjórn. Þessar konur voru: Katrín Magnússon, formaður Hins íslenska kvenfélags, Þórunn Jónassen, formaður Thorvaldsensfélagsins, Guðrún Björnsdóttir, mjólkursölukona og Bríet Bjarnhéðinsdóttir, ritstýra kvennablaðsins og formaður Kvenréttindafélags Íslands.
Þess var ekki langt að bíða að konur um allt land fengju sömu réttindi og stallsystur þeirra í Reykjavík og Hafnarfirði. Árið 1909 fengu allar giftar konur kosningarétt og kjörgengi til sveitastjórna sem og vinnukonur og verkamenn. Sex árum síðar - árið 1915 öðluðust konur og vinnuhjú, 40 ára og eldri, langþráðan kosningarétt til Alþingis. Aldursákvæðið var einsdæmi í heiminum, en átti að lækka um eitt ár árlega næstu 15 árin. Bríet Bjarnhéðinsdóttir var á meðal þeirra sem fannst ákvæðið fáránlegt og taldi að Íslendingar yrðu að athlægi í útlöndum fyrir vikið. Lögunum var hins vegar breytt árið 1920 og fengu þá konur og vinnuhjú full pólitísk réttindi við 25 ára aldur.
Heimildir
- Gunnhildur Sigurhansdóttir, „Kosningaréttur íslenskra kvenna“.
- Kristín Ástgeirsdóttir, „Konur og sveitarstjórnir í 100 ár“.
Þetta efni er frá:
Borgarskjalasafni Reykjavíkur
Texti: Bára Baldursdóttir.