Fyrir þúsund ára afmæli Íslandsbyggðar og konungsheimsóknina 1874 var Reykjavík klædd í sinn fegursta skrúða. Eftir afmælið státaði bærinn af breiðgötu (Aðalstræti) og torgi (Austurvelli). Næsta skref var að:
lýsa bæinn dálitíð upp. Það virtist ekkert lát á stórhug bæjarstjórnar. Haustið 1875 var samþykkt að taka 2000 króna lán úr hafnarsjóði til að kaupa steinolíuker og 250 krónur til reksturs þeirra. Næsta ár voru keypt sex ljósker frá Kaupmannahöfn og Leith og voru þau ýmist á staurum eða með örmum til að festa á húshliðar. ... Ekki voru allir Reykvíkingar sammála um nauðsyn lýsingar í bænum. Þær raddir heyrðust jafnvel að ljóskerin yrðu aðeins til þess að lýsa þjófum sem hefðu hug á að bregða sér inn í einhverja kaupmannsbúð í Hafnarstræti að næturþeli eða til að vísa náunganum veginn að "brennisvíns-brenninum gamla, hans Jörundar heitis "frænda"" (Svínastíunni á Hótel Íslandi). Árið 1888 barst bæjarstjórn furðutilboð, að því er bæjarfulltrúum fannst. Enskt félag bauðst til að raflýsa götur bæjarins, en slík lýsing var þá rétt komin til sögu í einstöku evrópskum borgum. Tilboðinu var snarlega hafnað. Háttvirtir bæjarfulltrúar voru engir ævintýramenn.
Heimild: Guðjón Friðriksson: Saga Reykjavíkur, bærinn vaknar 1870-1940. Fyrri hluti. Reykjavík 1991, bls. 30-31.