Járnbraut í Reykjavík

Fyrsta járnbrautarferð á Íslandi
BsR. Póstkort. Fyrsta járnbrautarferð á Íslandi. Einkaskjalasafn Sveinbjörns Jónssonar (nr. 277).

Hugmyndir um lagningu járnbrautar í Reykjavík ná aftur til aldamótanna 1900. Það var hins vegar ekki fyrr en árið 1913 að járnbraut var lögð í Reykjavík, til þess að auðvelda flutning á grjóti til hafnargerðar, sem þá var hafin. Lögð voru tvenn járnbrautarspor, annað frá Örfiriseyjargranda og að Öskjuhlíð og var sú leið venjulega nefnd „leiðin út að Granda“ og hin frá Batterísgrandanum, núverandi Ingólfsgarði og upp í Öskjuhlíð, svokölluð „Austurálma“. Keyptar voru tvær eimreiðar, Minör og Pionér, en þær eru nú á Árbæjarsafni (Pionér) og við Miðbakka í Reykjavíkurhöfn (Minör). Eftir að hafnargerðinni lauk árið 1917 keypti bæjarsjóður eimreiðarnar og járnbrautirnar af danska verktakafyrirtækinu N.C. Monberg sem hafði séð um hafnargerðina og voru þær notaðar við ýmis verk allt fram til ársins 1928.

Heimild: Þorleifur Þorleifsson: „Járnbrautin í Reykjavík 1913-1928“. Saga XI. Reykjavík 1973, bls. 116-161.



Hafnargerð í Reykjavík
BsR. Póstkort. Hafnargerð í Reykjavík. Einkaskjalasafn Sveinbjörns Jónssonar (nr. 277).