Á undanförnum árum hefur áhugi fólks á sögu húsa sinna stóraukist. Á Borgarskjalasafni eru varðveittar heimildir um öll hús í Reykjavík. Í skjalasafni byggingarfulltrúa, sem varðveitt er á safninu, er mappa fyrir sérhvert hús þar sem finna má skjöl varðandi byggingarsögu hússins og breytingar á því. Lóðasamningar fyrir leigulóðir eru til á safninu og einnig eru möppur til sem varðveita skjöl um gömul erfðafestulönd. Brunavirðingar eru til fyrir öll hús í Reykjavík sem byggð hafa verið fyrir 1981. Í þeim er greinargóð lýsing á byggingarefni og herbergjaskipan og í eldri virðingum er oft að finna lýsingu á vegg- og gólfefnum. Einnig eru á Borgarskjalasafni manntöl/íbúaskrár allt frá 1768.