Forsíða Leiðari Um skjaladaginn Dagskrá Getraun Skjalasöfnin Veðurslóðir
  • Ístaka á Tjörninni í Reykjavík.
    Ljósmynd úr Einkaskjalasafni Sveinbjörns Jónssonar nr. 277.
  • BSR: Málasafn borgarstjóra.
  • Ístaka á Tjörninni. Askja nr. 685.

Ístaka var stunduð á Reykjavíkurtjörn frá því fyrir aldamótin 1900 og fram á fjórða áratug 20. aldar. Árið 1894 var stofnað hlutafélag undir nafninu Ísfélagið við Faxaflóa að tilstuðlan Tryggva Gunnarssonar, þáverandi bankastjóra Landsbankans. Tilgangur félagsins var „að safna ís og geyma hann til varðveizlu matvælum og beitu, verzla með hann og það sem hann varðveitir bæði innanlands og utan, og styðja að viðgangi betri veiðiaðferða við þær fisktegundir, er ábatasamt er að geyma í ís.“ Félagið reisti í framhaldinu myndarlegt íshús austast í Hafnarstrætinu á lóð Ziemsenverslunarinnar og í framhaldinu hófst ístaka á Tjörninni. Þetta framtak markaði tímamót í mataræði Reykvíkinga, því eftirleiðis gátu bæjarbúar keypt sér kjöt og fisk eftir hentugleikum frá hausti til vors.

Ístakan gat ekki hafist fyrr en Tjörnin var orðin hestheld og nægur snjór til staðar fyrir hestasleða sem notaðir voru við ísflutningana. Þetta var erfiðisvinna í kulda og trekki en þó voru engin vandkvæði að fá nægan mannskap til verksins. Hrafn Ingvar Gunnarsson, sagnfræðingur hefur lýsir þessum verkþætti á eftirfarandi hátt:

Þegar út á Tjörnina kom afmörkuðu karlarnir hæfilega breitt svæði þar sem ísinn var tærastur og bestur. Síðan voru járnkarlar mundaðir og og höggvið gat á hann svo koma mætti íssögunum að. Hið afmarkaða svæði var rist í lengjur og hver lengja höggvin í allstóra jaka. Við þessar tilfæringar voru notaðar langskeftar ísaxir og íshakar. Þá var eftir að koma jökunum upp á skörina.Var þetta hið kalsamasta verk og erfitt enda vont að ná haldi á blautum ísnum. Nú komu til þess gerðar ísstangir að góðum notum. Með þeim voru jakarnir vegnir upp á skörina og áfram á sleðana. Þegar því verki var lokið gat heimferðin hafist. Hestarnir siluðust í átt að litlu steinbryggjunni, eftir henni upp tjarnarbakkann og síðan á ákvörðunarstað. Þetta var oft hið tafsamasta ferðalag því ísstykkin vildu velta af sleðunum.

Þess var skammt að bíða að fleiri athafnamenn í Reykjavík fylgdu í kjölfarið og létu reisa íshús sem voru sum hver hin glæsilegustu. Thor Jensen byggði eitt slíkt á fyrsta tug aldarinnar sem gekk undir nafninu Ísbjörninn og þótti mikið skrauthýsi og var hann gagnrýndur af þeim sökum fyrir bruðl. Í ævisögu sinni réttlætti hann bygginguna með þeim rökum að vegna þess að hann hefði byggt „íshús þarna rétt framan í höfðingjunum á einum fegursta stað í bænum,“ hefði hann ekki getað hugsað sér „að vera svo smásmugulegur að ganga frá því eins og argasta kumbalda.“ Íshúsin heyra nú flest sögunni til, en tvö þeirra standa enn þann dag í dag. Annað þeirra er íshúsið Herðubreið sem var reist að Fríkirkjuvegi 7, árið 1916. Síðar meir var þar rekinn einn ástsælasti skemmtistaður ungu kynslóðarinnar, Veitingastaðurinn Glaumbær, en í dag hýsir það Listasafn Íslands. Hitt var reist af Ísfélaginu við Faxaflóa á öðrum tug aldarinnar við Tjarnarbakkann og í dag þekkja það flestir undir nafninu Tjarnarbíó.

Heimild:
Hrafn Ingvar Gunnarsson. „Ístaka á Tjörninni“. Sagnir. Tímarit um söguleg efni. 1984, bls. 94-98.

Norræni skjaladagurinn 13. nóvember 2010