Viceroy stúlkurnar koma aftur!

Dreifibréf um keppnina „Ungfrú Viceroy 1974“. Borgarskjalasafn Reykjavíkur. Einkaskjalasafn nr. 355.
Mynd 1: Forsíða Viceroy dreifibréfsinsMynd 2: Baksíða Viceroy dreifibréfsins
Í október árið 1974 bárust landsmönnum þær fregnir að Viceroy* stúlkurnar væru aftur væntanlegar til Íslands og þær Kay, Gail, Susan, Jeannie, Elaine og Lindsay myndu keppa um titilinn „Ungfrú Viceroy 1974“. Stúlkurnar vöktu verðskuldaða athygli, og þær heimsóttu ýmsar matvöruverslanir og komu fram við ýmis tækifæri í höfuðborginni.
Dreifibréf um keppnina lá frammi í flestum matvöruverslunum borgarinnar og landsmönnum gafst kostur á að velja þá stúlku sem best var að titlinum komin. Þátttökuseðli átti einnig að fylgja slagorð sem lýsti því af hverju fólk veldi Viceroy sígarettur. Þátttakendur í valinu gátu unnið 10 daga sólarlandsferð fyrir tvo og 25 þúsund í vasapening. Aukaverðlaun voru tvö ferðasegulbandstæki. Dómarar voru kaupmenn sem seldu tóbak hér á landi og voru verðlaunin afhent í byrjun nóvember í hófi að Hótel Loftleiðum þar sem tilkynnt var um fegurstu Viceroy stúlkuna.
Engar heimildir finnast um hvaða stúlka var valin „Ungfrú Viceroy“.
* Viceroy var vinsæl sígarettutegund á 20. öld.
Þetta efni er frá:
Borgarskjalasafni Reykjavíkur
Texti: Svanhildur Bogadóttir og Gréta Björg Sörensdóttir.