Konur og kvenfélög


Varnir gegn ásæknu kvenfólki


Bréf landlæknis til Barnaverndarnefndar

Bréf frá landlækni til Barnaverndarnefndar Reykjavíkur 29. desember 1932 þar sem fjallað er um heilbrigðislega þýðingu þess að höfninni í Reykjavík væri lokað og eftirlit haft með því að kvenfólk sækti ekki í skipin. Borgarskjalasafn Reykjavíkur: Barnaverndarnefnd Reykjavíkur. Askja 23. Ýmislegt. Tímabil 1932-1958.

Fram kemur í nýrri reglugerð um framkvæmd siglingaverndar nr. 265/2008 að markmið hennar sé „að koma á og framkvæma viðeigandi ráðstafanir til að tryggja vernd skipa, áhafna, farþega, farms, hafna og hafnaraðstöðu, siglinga og skipasamgangna fyrir hryðjuverkum og öðrum vísvitandi ólögmætum aðgerðum“. Þriðji kafli reglugerðarinnar fjallar um gæslu, vöktun og afmörkun hafnaraðstöðu og haftasvæða. Þar kemur m.a. fram í flokki 2 að tilgangur afmörkunar sé að „torvelda óviðkomandi aðgang að hafnaraðstöðu eða haftasvæði. Afmörkun skal vera þannig úr garði gerð að einhvern tíma taki að komast yfir eða í gegnum girðinguna“.

Umrædd reglugerð var að einhverju leyti sett í framhaldi af umræðu um siglingavernd og verndaráætlana til að tryggja öryggi hafna og þeirrar starfsemi sem þar fer fram auk þess að varna því að hryðjuverkamenn nýti sér skipaflutninga til að koma fram áformum sínum um hermdarverk.

Umræðu um öryggismál hafnarinnar er ekkert ný af nálinni og hefur öðru hvoru skotið upp kollinum. Í árslok 1932 var Reykjavíkurhöfn til umræðu hjá Barnaverndarnefnd Reykjavíkur og þá einnig um hvort rétt væri að girða hana af.

Í bréfi barnaverndarnefndar til hafnarstjórans í Reykjavík dags. 3. desember 1932 kemur meðal annars fram að jafnt eldri og yngri stúlkur, sumar jafnvel innan 16 ára aldurs, hafi vanið

komur sínar að kvöldi dags og að næturlagi út í skip þau, innlend og erlend sem liggja hér á höfninni og við hafnargarðana og dvelja þar næturlangt innan um óþektan og misjafnlega vandaðan sjómannalýð. Þykir þetta, sem von er, allsendis ósæmandi og bera vott um afar lágt siðferðisástand í bænum, sem bæjarbúar hvorki vilja né geta unað við lengur, endur hefur þráfaldlega verið kvartað undan þessu og nú nýlega við Barnaverndarnefnd Reykjavíkur, sem með tilliti til stúlkna innan 16 ára aldurs beri að hlutast til um að bót verði ráðin á þessu nú þegar.

Nefndin skorar á hafnarstjóra að hlutast til um það að

Reykjavíkurhöfn verði lokað frá kl. 6 að kveldi til kl. 6 að morgni dag hvern framvegis enda hafist enginn óviðkomandi við í skipum á hinu lokaða svæði á þeim tíma þannig, að sett sé girðing umhverfis höfnina allsstaðar þar sem þurfa þykir og nauðsynlegt er, eða á anna hátt svo tryggilega umbúið, að hægt sé að hindra alla óeðlilega og óþarfa umferð óviðkomandi manna að kveldi dags og að næturlagi út í skip þau er í höfninni liggja eða við hafnargarðana, enda séu nægir verðir þar á staðnum til að hindra slíka umferð ... .

Svipað kemur fram í bréfi frá Vilmundi Jónssyni, landlækni til formanns Barnaverndarnefndarinnar hinn 29. desember 1932, en þar segir:

Ég staðfesti hér með þau ummæli mín í samtali við yður fyrir nokkru síðan, að það ætti að geta haft verulega heilbrigðislega þýðingu, ef höfninni hér í Reykjavík væri lokað og eftirlit haft með því, að lauslátt kvenfólk sækti ekki í skip, sem þar liggja. En að því munu allmikil brögð, eins og nú er. Hefi ég borið mig saman við kynsjúkdómalækni Hannes Guðmundsson um þetta, og lítur hann á málið á sama hátt og ég. Bar hann erlendan skipstjóra, sem hann þekkir, fyrir því, að erfiðara væri orðið að gæta skipa hér við hafnarbakkann fyrri ásæknu kvenfólki en í höfnum Suðurlanda, sem þó eru alræmdar. Þarf ekki að útskýra það, hverja þýðingu slíkt hlýtur að hafa fyrir útbreiðslu kynsjúkdóma, því að alkunnugt er, að farmenn eru þar hinir hættulegustu sóttberar.

Barnaverndarnefnd tók málið upp að nýju árið 1934 en án árangurs. Í bréfi Barnaverndarnefndar og Barnaverndarráðs til bæjarráðs 27. október 1936 var enn á ný ítrekuð krafa þeirra um afgirðingu á hafnarsvæðinu

svo að unglingarnir verði eigi lengur ofurseldir þeirri miklu hættu, sem af því stafar, að þeir hafi algjörlega óhindraðan aðgang að höfninni og skipum þeim er þar liggja.

Hafnarstjórn fékk málið til umsagnar, en hún taldi „ástæðulaust“ að sinna tilmælum lögreglustjóra og staðfesti bæjarstjórn neitun hafnarstjórnar.

Þetta mál átti eftir að verða oft til umræðu á næstu árum og áratugum, bæði girðingar við höfnina og aukin löggæsla. Það var síðan á árinu 2004 í kjölfar lagasetningar og umræðu um möguleg hryðjuverk og öryggismál hafnanna að ákveðið var að Miðbakki Reykjavíkurhafnar yrði lokaður öllu fótgangandi fólki. Settar voru upp girðingar til að tryggja að enginn óviðkomandi gæti nálgast skip sem þar hefðu viðkomu.


Þetta efni er frá:
Borgarskjalasafni Reykjavíkur
Texti: Svanhildur Bogadóttir.