Konur og kvenfélög


Ullarvinnuskóli í þágu fátækra stúlkubarna



asd

Auglýsing frá ullar- og sunnudagsskóla fyrir unglingsstúlkur sem hóf starfsemi sína árið 1879 í Reykjavík. Ekki er ljóst hvar hann var nákvæmlega til húsa, en í auglýsingunni segir að hann hafi verið í „í húsi því er stendur hjá veitingahúsi Hallbergs“, sem var þekkt krá á horni Austurstrætis og Aðalstrætis.


Árið 1879 réðust fimm reykvískar yfirstéttarkonur í það verkefni að stofna „ullarvinnu - og sunnudagsskóla“ fyrir fátækar unglingsstúlkur. Skólinn hóf göngu sína hinn 1. nóvember það ár og stóð til 31. mars og var kostnaður greiddur úr sérstökum styrktarsjóði í vörslu kvennanna. Stærsta framlagið kom frá vildarvinum í Englandi, sbr. auglýsingu sem birtist í Ísafold skömmu eftir að skólinn tók til starfa:

Miss Annie Parker ... og Dr. Christopher Thomas Richardson ... hafa verið svo veglynd að senda í sameiningu vinnu- og styrktarsjóði þeim, er vjer veitum forstöðu ? 4, og erum vjer þeim því þakklátari fyrir þetta, sem fáir hafa sýnt sig rausnarlegri í því að styrkja fyrirtæki vort, enda getum vjer að mestu leyti þakkað hinum heiðruðu útlendingum það, að vjer rjeðumst í að halda í vetur sunnudagaskóla fyrir unglingsstúlkur þær, er fá tilsögn rúmhelgu dagana í ullarvinnuskóla vorum.

Stúlkurnar fengu því ókeypis tilsögn í ullarvinnu og jafnframt fór fram kennsla í skrift og reikningi fyrir hádegi á sunnudögum og var miðað við að þær hefðu náð 12 ára aldri. Virðist framtakið hafa heppnast vel ef marka má auglýsingu sem birtist frá skólanum í Þjóðólfi vorið 1880. Þar lýsa konurnar yfir ánægju sinni með árangurinn og væntingum til skólans: „vér höfum með gleði séð, að hann hefir gjört talsvert gagn, og sannfærzt um, að hann með stöðugu áframhaldi muni geta gjört mjög mikið gagn, höfum vér ákveðið, að láta aptur að komanda vetri halda áfram kennslunni“. Í auglýsingunni kom ennfremur fram að sjóðurinn aflaði meðal annars tekna með því að selja borgarbúum ullarnærboli og sokkaplögg:

Svo geta og þeir, er kynnu að vilja fá eitthvað prjónað á prjónavél vinnusjóðsins, snúið sér til vor um það; prjón á hálfsokkum og barnasokkum kostar 35 aura, heilsokkum 50 a., röndóttum heilsokkum 60 a. og á skirtubolum 66 a.

Ári síðar segir greinarhöfundur í Þjóðólfi að konurnar fimm hafi „látið halda skóla fyrir alt að 20 unglingsstúlkur á ári til þess ókeypis að kenna þeim ullarvinnu; þetta er að voru áliti alveg rétt aðferð, og eiga þær meira þakklæti skilið fyrir þessa framgöngu sína enn þær hafa fengið.“ Burtséð frá þessu framtaki voru stofnendur ullarvinnuskólans í fararbroddi reykvískra kvenna úr borgarastétt sem beittu sér fyrir bættri menntun kvenna. Þær áttu það meðal annars sameiginlegt að hafa verið á meðal 25 kvenna sem undirrituðu „Ávarp til Íslendinga“ sumarið 1871 þar sem þess var farið á leit við landsmenn að þeir leggðu fram fé til stofnunar kvennaskóla í höfuðborginni. Þremur árum síðar var Kvennaskólinn í Reykjavík stofnaður. Það sem tengdi þessar konar ennfremur saman var að þær tilheyrðu allar fámennri yfirstétt borgarinnar og voru því dætur og/eða eiginkonur háttsettra manna í samfélaginu. Með baráttu sinni fyrir bættri menntun kynsystra sinna fundu þær sér vettvang utan veggja heimilisins og lögðu jafnframt sitt á vogarskálarnar til þessa að miðla þekkingu sinni.


Heimildir

  • Ísafold (1879).
  • Þjóðólfur (1880-1881).
  • Norðanfari (1871).
  • Björg Einarsdóttir, Úr ævi og starfi íslenskra kvenna. I-II. bindi, Rvk. 1986.
  • Guðjón Friðriksson, Saga Reykjavíkur. Bærinn vaknar 1870-1940. Fyrri hluti. Rvk. 1991.
  • Ingibjörg Eyþórsdóttir, „Erlendir tónlistarmenn á Íslandi á 20. öld“, Grein á musik.is.
  • Þorvaldur Thoroddsen, Ævisaga Pjeturs Pjeturssonar Dr. Theol. Biskups yfir Íslandi. Rvk. 1908.

Eftirtaldar konur stóðu að stofnun ullar- og sunnudagaskólans:

Olufa Finsen (1836-1908) var dönsk að uppruna, vel menntuð og viðurkennt tónskáld í heimalandi sínu. Hún fluttist til Íslands árið 1865 með eiginmanni sínum, Hilmari Finsen stiftamtmanni og síðar landshöfðingja. Olufa vann brautryðjendastarf í þágu tónlistar hér á landi í þau 17 ár sem hún dvaldi á landinu. Hún kenndi píanóleik og æfði blandaðan kór á heimili sínu. Við jarðarför Jóns Sigurðssonar forseta og Ingibjargar árið 1880 var flutt kantata sem henni hefur verið eignuð. Olufa „lék sjálf á orgel og tvöfaldur blandaður kvartett söng ásamt tveimur einsöngvurum, bariton og sópran. Þetta mun hafa verið í fyrsta skipti sem einsöngur heyrðist í jarðarför á Íslandi og öll tónlistin hafði mikil áhrif á viðstadda.“

Ástríður Melsted (1825-1897) var dóttir Helga biskups Thordersen og konu hans, Ragnheiðar, dóttur Stefáns Stephensen amtmanns. Hún nam píanóleik erlendis og fékkst við kennslu á því sviði hérlendis líkt og Olufa. Hún hafði hlotið góða almenna menntun að hætti kvenna úr borgarastétt á þeim tíma og kenndi meðal annars fósturdætrum sínum frönsku, ensku og þýsku. Ástríður giftist Sigurði Melsted kennara við Prestaskólann.

Sigríður Pjetursson (1818-1903) var eiginkona Pjeturs Pjeturssonar biskup. Í ævisögu eiginmannsins segir: „Frú Sigríður var hin mesta búsýslukona og sístarfandi utanhúss og innan og mátti heldur ekki sjá aðra óvinnandi, heimili hennar var því fyrirmynd hvað verknað snerti og hússtjórn: átti opt að koma þangað stúlkum til kennslu, en það fengu færri en vildu. Dætur sínar ljet hún læra allt, sem hússtjórn snerti, eigi aðeins sauma og hannyrðir, almenna bóklega menntun, tungumál og hjóðfæraslátt, heldur hjelt hún þeim líka til lærdóms í allri tóvinnu og matargjörð og ljet þær fást við hvert það verk, sem á heimili er títt og búið þarf.“ Í ævisögunni segir ennfremur að Sigríður hafi ásamt „öðrum frúm í Reykjavík“ komið á fót „tóvinnukennslu fyrir fátæk stúlkubörn“.

Sigríður Siemsen (1820-1903) Þorsteinsdóttir giftist hinum þýskættaða Edvard Siemsen konsúl og kaupmanni í Reykjavík. Þau eignuðust 12 börn á 17 ára tímabili. Til fróðleiks má geta þess að sonur þeirra, Franz, kvæntist Þórunni dóttur Árna og Soffíu Thorsteinsson. Afkomendur þeirra hafa komið sér upp sérstakri Facebook síðu sem hægt er að tengjast hér.

Soffía Thorsteinsson (1839-1914) var eiginkona Árna Thorsteinsson land- og bæjarfógeta. Í Sögu Reykjavíkur tekur Guðjón Friðriksson landfógetaheimilið sem dæmi um íslenskt yfirstéttarheimili um 1870. Þar segir m.a.: „Á haustin voru keyptar nokkrar kindur á fæti og þeim síðan slátrað heima við og allt nýtt úr þeim til matar og klæða. Á veturna sátu landfógetafrúin og vinnukonur hennar önnum kafnar í setustofunni við tóvinnu eða saumaskap. Þær spunnu, kembdu, prjónuðu, sniðu og saumuðu. Á borði var handsnúin saumavél, ein af þeim fyrstu í Reykjavík.“


Þetta efni er frá:
Borgarskjalasafni Reykjavíkur
Texti: Bára Baldursdóttir.