Borðalagðir dátar og borgardætur


Bréf til Barnaverndar Reykjavíkur frá Sigurjóni Sigurðssyni, lögreglustjóra í Reykjavík frá 8. desember 1944, með tilvísun í bréf frá Ungmennaeftirlitinu þar sem vakin er athygli á þeirri hættu sem steðji að reykvískum æskulýð og þá sérstaklega að blómanum úr röðum Reykjavíkurdætra vegna aðgangs hermanna að skautaísnum á Tjörninni. Því er lagt til að hermönnum verði bannaður aðgangur að skautasvellinu, en nái það ekki fram að ganga er mælst til þess að Tjörnin verði upplýst og vöktuð af einkennisklæddum lögregluþjónum. Enn fremur gagnrýnir Ungmennaeftirlitið bandaríska Rauða Krossinn fyrir að "lokka barnungar stúlkur til fylgis við hermenn" með því að aka þeim til keflavíkur á dansleiki á vegum samtakanna.


Bréf til Lögreglustjórans í Reykjavík - Síða 1

Bréf til Lögreglustjórans í Reykjavík - Síða 2

Bréf til Lögreglustjórans í Reykjavík - Síða 3

Bráðabirgðarlög


Með hernámi Breta vorið 1940 dróst Ísland inn í hildarleik síðari heimsstyrjaldar. Í kjölfar herverndarsamningsins við Bandaríkin rúmu ári síðar fjölgaði hermönnum til muna á landinu. Þegar mest lét voru um það bil 45.000 hermenn staðsettir hér á landi, en þá voru landsmenn í kringum 125.000.

Skömmu eftir hernámið fóru að heyrast raddir í samfélaginu sem kröfðust þess að íslenskar konur gætu gengið eftir götum borgarinnar án þess að verða fyrir áreitni af hálfu innrásarhersins. Aðrir skelltu skuldinni á Reykjavíkurdætur sem þóttu missa allan viðnámsþrótt í návígi við borðalagða dátanna sem áttu í vök að verjast gagnvart lauslætisdrósunum. Upp komu þær hugmyndir að útskúfa bæri slíkum konum úr samfélaginu vegna óábyrgrar háttsemi sem gæti stefnt íslensku þjóðerni og menningu í voða. Ráðandi hugmyndir um hreinleika þjóðarinnar urðu þess valdandi að hvatt var til ríkisafskipta af "ástandinu", eins og hin umdeildu samskipti íslenskra stúlkna og setuliðsmanna voru nefnd á stríðsárunum. Afskiptin voru réttlætt með því að vísa til þess að hermannasýkin væri smitandi þjóðfélagssjúkdómur sem þyrfti lækningar við. Vilmundur Jónsson landlæknir var einn helsti hvatamaður til aðgerða af hálfu yfirvalda og vakti máls á þeirri geigvænlegu þjóðernislegu hættu sem "ástandið" gæti haft í för með sér. Hann mælt því með að lögreglan flytti lauslætisdrósirnar á afskekkt vinnuhæli og taldi einnig skynsamlegt að flytja allar 12 -16 ára stúlkur burt úr borginni.

Sumarið 1941 var sérstakri ástandsnefnd á vegum dómsmálaráðuneytis falið að gera úttekt á stöðunni og varð afrakstur nefndarinnar, svonefnd "ástandsskýrsla", kornið sem fyllti mælinn hjá ráðamönnum þjóðarinnar. Í skýrslu nefndarinnar kom m.a. fram að lögreglan hafði skrásett nöfn tæplega 500 kvenna sem nefndin taldi að væru í nánum samskiptum við setuliðið og var rúmlega helmingur þeirra innan við 21 árs. Viðbrögðin urðu heiftarleg í samfélaginu og var mælst til þess, að herinn flytti inn vændiskonur fyrir liðsmenn sína svo þeir létu vera að "seilast í vé okkar Íslendinga" eins og það var orðað í einu dagblaðanna.

Í árslok 1941 voru sett bráðabirgðarlög sem höfðu það markmið að draga úr hættunni á því að stúlkur undir tvítugsaldri hefðu náin samskipti við setuliðsmenn. Stofnað var sérstakt Ungmennaeftirlit lögreglunnar og Ungmennadómur sem dæmdi unglingsstúlkur til vistunar á heimilum eða hælum vegna lauslætis með hermönnum. Fjölmargir vinnuveitendur hótuðu stúlkum brottrekstri ef þær gæfu sig að hermönnum og sömuleiðis gaf Kvennaskólinn námsmeyjum sínum skýr fyrirmæli um að samskipti við hermenn gæti kostað þær brottvísun úr skólanum. Reynt var eftir megni að takmarka samgang hermanna og íslenskra stúlkna á opinberum stöðum og má sem dæmi nefna sundlaugar borgarinnar sem úthlutuðu setuliðsmönnum sérstaka tíma fyrir utan almennan opnunartíma. Enn fremur var reynt að takmarka aðgang ungra stúlkna að dansleikjum á vegum setuliðsins og lagt var til að hermönnum yrði bannaður aðgangur að Reykjavíkurtjörn.

Texti er byggður á eftirfarandi heimild: Bára Baldursdóttir, "This Rot Spreads lika an Epidemic". Policing Adolescent Female sexuality in Iceland during World War II. M.A.- ritgerð frá University of Maryland, College Park, 2000.


Þetta efni er frá:
Borgarskjalasafni Reykjavíkur

 

Athugasemdir gesta


Skráðu athugasemd


Nafn:

Póstfang:
Athugasemdir:

Umsjón