Hasar í höfuðborginni


Skömmu eftir að bandarískir hermenn settust að í Reykjavík á stríðsárunum tók að bera æ meira á lesefni frá heimalandi þeirra sem fór mjög fyrir brjóstið á sumum bæjarbúum. Þarna voru á ferðinni teiknimyndablöð, oft í öllum regnbogans litum. Fljótlega var farið að kalla þau "hasarblöð" og krakkar voru sérlega áhugasamir um þau, einkum strákar um og undir fermingu. 



Hasarblöðin nutu síðan sívaxandi vinsælda og flæddu yfir höfuðstaðinn að styrjöld lokinni. Vart var hægt að þverfóta fyrir strákum í bókabúðum sem höfðu þannig blöð á boðstólum, þeir stóðu framan við yfirfull blaðaborðin, handléku varninginn og völdu vandlega úr. Stundum voru þeir svo sólgnir í blöðin að þeir notuðu hvern sinn eyri til þess að komast yfir gersemarnar. Í hasarblöðunum kynntust krakkarnir nýjum og spennandi heimi, kynjaveröld, oft býsna ógnvekjandi. Á hverri síðunni af annarri voru myndir sem sögðu sex! Ókennilegar verur, grimm óargadýr, ófreskjur í mannsmynd, hálfnakið kvenfólk, glæpir og bardagar. Menn voru stungnir á hol svo rautt blóðið fossaði yfir heilar og hálfar síður, tígrisdýr rifu fólk í sig, eiturnöðrur spýttu.

Hasarblöðin seldust jafnan upp þegar þau komu í bókabúðir, gengu síðan kaupum og sölum milli krakkanna fyrir mun hærra verð en sett var á þau í verslunum. Ásóknin í blöðin var slík að mörgu fullorðnu fólki ofbauð. Þegar hasarblöðin höfðu fengist í höfuðstaðnum í nokkur ár urðu þær raddir sífellt háværari sem kröfðust þess að þau yrðu bönnuð því vart fyndist skaðlegra lesefni, það æsti upp verstu hvatir mannskepnunnar og hefði óæskileg áhrif á æskuna, sem lærði ljóta siði af slíkum bókmenntum. Þeir sem þannig töluðu furðuðu sig á að bóksalar seldu þvílíkan varning og settu ofan í við þá fyrir að reyna að græða á blessuðum börnunum. Þeir væru í raun að selja þeim andlegt eitur og ættu að skammast sín. Krafist var ráðstafana af hálfu barnaverndaryfirvalda og jafnframt var skorað á þá sem réðu gjaldeyrismálunum að hætta að veita leyfi fyrir innflutningnum. 


Bréf frá barnaverndarnefnd Reykjavíkur til Barnaverndarráðs Íslands, þar sem þess er farið á leit, að ráðið hlutist til um að eftirleiðis verði verðmætum erlendum gjaldeyri ekki eytt til kaupa á vafasömu lesmáli fyrir börn, eins og "hazard"-blöðunum svonefndu.


Þegar gjaldeyrisörðugleikar tóku að hrjá Íslendinga á árunum fyrir 1950 gátu margir reykvískir foreldrar andað léttar því hasarblöðin voru fljótlega sett á bannlista, erlendur gjaldeyrir þótti of dýrmætur til þess að verja honum í andlegt fóður af því taginu. Innflutningsbannið var síðan í gildi fram eftir sjötta áratugnum. Ekki tókst þó að koma í veg fyrir að hinir forboðnu ávextir kæmust í hendur Reykjavíkuræskunnar. Ný blöð slæddust endrum og sinnum til landsins og í fornbókaverslunum bæjarins var hægt að kaupa eldri blöð. 



Texti: Eggert Þór Bernharðsson, Saga Reykjavíkur. Borgin 1940-1990. Síðari hluti. Reykjavík 1998, bls.129 -130.


Þetta efni er frá:
Borgarskjalasafni Reykjavíkur

 

Athugasemdir gesta


Skráðu athugasemd


Nafn:

Póstfang:
Athugasemdir:

Umsjón