Frá því fyrsti bíllinn kom til landsins var keyrt vinstra megin á vegum landsins en sunnudaginn 26. maí 1968 var skipt yfir í hægri umferð. Árið 1940 voru sett umferðarlög á alþingi sem kváðu meðal annars á um að taka upp hægri umferð 1. janúar 1941 en vegna hersetu Breta kom þetta ákvæði ekki til framkvæmda.
Frumvarp til laga um hægri handar umferð var svo samþykkt á Alþingi 1965-1966 og kom það í hlut gatnamálastjóra borgarinnar og framkvæmdanefndar hægri umferðar að sjá um framkvæmd skiptingarinnar.
Rökin fyrir því að skipt var yfir í hægri umferð voru helst þau að hægri umferð var orðin ráðandi í umferð á landi og algild í lofti og á sjó. Einnig voru bílar yfirleitt framleiddir með stýrið vinstra megin og hafa þá ökumenn betri yfirsýn í hægri akstri auk þess sem tiltekið var að bílar sem henta vinstri handar umferð væru orðnar dýrari en hinir.
Heimild:
Hægri umferð, leiðbeiningar frá framkvæmdanefnd hægri umferðar.