„Leynilögreglan“ í Reykjavík kynnt til sögunnar 1918

Norræni skjaladagurinn 2018

„Leynilögreglan“ í Reykjavík kynnt til sögunnar 1918

Tillögur Jóns Hermannssonar lögreglustjóra um breytingar á lögregluliði bæjarins. BSR A-2951.

Tillögur Jóns Hermannssonar lögreglustjóra um breytingar á lögregluliði bæjarins. BSR A-2951.

 

Í bréfi sem Jón Hermannsson lögreglustjóri í Reykjavík sendi til borgarstjórans þann 2. desember 1918 er ítarlega farið yfir stöðu lögreglunnar í bænum og ýmsar tillögur settar fram í því til þess að m.a. fjölga í liðinu sem og bæta kjör þeirra og kaup. Ein af áhugaverðari tillögum lögreglustjórans kemur fram í kvörtun hans yfir því að lögreglulið bæjarins sé „alveg ófullnægjandi“ vegna stækkunar bæjarins og breytinga á ástandi hans. Telur hann því nauðsynlegt að skipta lögregluliðinu í „eftirlitslið og rannsóknarlið, sem stundum er kallað leynilögreglulið“.

Þarna er fyrsti vísir að rannsóknarlögreglu á Íslandi. Jón segir að mikilvægt sé að fá hæfa rannsóknarlögreglumenn en það sé ekki hlaupið að því og úrræði í þeim efnum ekki önnur en að reyna að ná í menn sem til þess væru hæfir „og uppala þá við starfið og láta þeim lærast það smátt og smátt“. Leggur hann til að fá einn fastan lögregluþjónn sem hafi þegar haft á hendi sér rannsóknir og eftirgrennslanir í lögreglunni. Leggur hann til að fyrrverandi yfirlögregluþjónn og sá elsti að skipunaraldri Páll Árnason verði ráðinn í það starf.

Einnig er áhugavert að sjá í bréfi lögreglustjórans að rökin fyrir því að það verði að fjölga í liðinu séu m.a. að þótt 9 stöðugildi hafi verið skráð 1918 þá séu aðeins 7 fastskipaðir lögreglumenn þar sem hvorki sé yfirlögregluþjónsstaðan mönnuð og settur maður sé í einni stöðu. Meðaldur hópsins er 50 ára og meðalstarfsaldur 10 ár. Leggur lögreglustjórinn til að lögregluliðinu verði fjölgað í 19 manns og verði þannig skipað: Yfirlögregluþjónn, 1 rannsóknarlögregluþjónn, 10 daglögregluþjónar og 7 næturlögregluþjónar. Er því um umtalsverða fjölgun að ræða. Með þessum tillögum er lögreglustjórinn einnig að leggja til að leggja niður aðskilnað á milli starfa lögregluþjóna og næturvarða eins og þá tíðkaðist og taka upp vaktatíma sem nái bæði til dags og nætur.

Lögregluþjónn á vaktinni í Pósthússtræti um 1910-1920. LR MAÓ 200.

Lögregluþjónn á vaktinni í Pósthússtræti um 1910-1920. LR MAÓ 200.

Skemmtileg er lýsingin á þeim kostum sem verðandi yfirlögregluþjónn þyrfti að búa yfir að mati Jóns en hann segir m.a. að „…Hann ætti ennfremur að vera þeim hæfileikum búinn, að hann gæti haldið uppi líkamsæfingum með lögregluliðinu og leiðbeint lögreglumönnum í limaburði og ýmsum aðferðum í viðureign við menn, sem lögreglumenn þurfa að kunna. Ennfremur þyrfti hann að vera sæmilega bóklega menntaður.“.

Að lokum fer lögreglustjórinn ítarlega yfir launakjör lögreglumanna og útlistar þeim kröfum með rökstuðningi og samanburði t.d. við laun verkamanna. Leggur hann að lokum til að borgarstjóri komi þessum tillögum á framfæri við bæjarstjórnina svo að þetta komist í fyrirhugaða lögreglusamþykkt áður en hún öðlast gildi og að nægjanlegt fjármagn fáist til þessa.

Tillögur Jóns Hermannssonar lögreglustjóra um breytingar á lögregluliði bæjarins. BSR A-2951.Tillögur Jóns Hermannssonar lögreglustjóra um breytingar á lögregluliði bæjarins. BSR A-2951.Tillögur Jóns Hermannssonar lögreglustjóra um breytingar á lögregluliði bæjarins. BSR A-2951.Tillögur Jóns Hermannssonar lögreglustjóra um breytingar á lögregluliði bæjarins. BSR A-2951.Tillögur Jóns Hermannssonar lögreglustjóra um breytingar á lögregluliði bæjarins. BSR A-2951.

 

Það er skemmst frá því að segja að lögreglusamþykktarnefndin tekur undir þessar tillögur lögreglustjórans þann 17. desember sama ár og leggur til að bæjarstjórnin geri hið sama og ákveði að koma hinu nýja skipulagi til framkvæmdar árið 1919. Undir þá ákvörðun rita Knútur Zimsen borgarstjóri og Ólafur Friðriksson bæjarfulltrúi og ritstjóri fyrir hönd nefndarinnar.

Jón Hermannsson var fyrsti lögreglustjórinn í Reykjavík og gegndi því embætti til ársloka 1928.
Knútur Zimsen var borgarstjóri í Reykjavík 1914-1932.
Ólafur Friðriksson ritstjóri og bæjarfulltrúi.

Texti: Andrés Erlingsson

Heimildir
Borgarskjalasafn Reykjavíkur. Málasafn borgarstjóra. Askja 763. Aðfnr. 2951.
Ljósmyndasafn Reykjavíkur. Magnús óLafsson. MAÓ 200.

 

Þetta efni er frá Borgarskjalasafni Reykjavíkur.