Launakröfur starfsmanna við salernishreinsun 1918

Krafa salernishreinsara um launahækkun sept. 1918.
Það hefur greinilega verið mjög erfitt að vinna við salernishreinsun í Reykjavík árið 1918 og veðurfar ekki bætt þar úr, sbr. kærubréfið frá íbúum Njálsgötu sem finna má hér á vefnum, og í bréfi sem starfsmenn bæjarins, sem unnu við slík störf, sendu til bæjarstjórnarinnar þann 16. september 1918 kemur fram eftirfarandi krafa:
…leyfum okkur hjermeð að fara þess á leit við hina háttvirtu bæjarstjórn að fasta kaup okkar verði hækkað um 20 krónur á mánuði minst, þar sem kaup það sem við nú höfum er alls ófullnægjandi til lífsframfærslu….
Svo rökstyðja þeir að launin séu þess eðlis að þau séu lægri en sem greidd eru fyrir hægari og þægilegri vinnu. Undir bréfið skrifa 4 salernishreinsar, þeir Einar Jónasson, Kristján Sæmundsson, Marteinn Finnbogason og Árni Magnússon. Samkvæmt skjölum frá mars 1917 í sömu öskju voru mánaðarlaun þessara starfsmanna hækkuð í 100 krónur þann mánuð og því voru þessar launakröfur 20%. Ekki er hinsvegar að finna í skjalasafninu staðfestingu á að þessar kröfur 1918 hafi gengið eftir.

Húsakostur í Reykjavík var misjafn árið 1918, þar með talin staða salernismála. Á myndinni má sjá Lambhól við Skerjafjörð. Talið frá vinstri: Tryggvi, Ragnhildur, Oddbjörg Sigurðardóttir og Helgi Sigurður Þórðarson. Myndin er tekin í kringum 1918. Borgarskjalasafn Reykjavíkur. E-378 Sigríður Ö. Stephensen.
Texti: Andrés Erlingsson
Heimildir
Borgarskjalasafn Reykjavíkur. Málasafn borgarstjóra. Askja 809. Aðfnr. 3144
Þetta efni er frá Borgarskjalasafni Reykjavíkur.