Fjölskylda í fátækt

Norræni skjaladagurinn 2018

Fjölskylda í fátækt

Í aðdraganda fátækraflutnings til framfærslusveitar voru útbúin sérstök vegabréf fyrir þá sem átti að flytja.

Í aðdraganda fátækraflutnings til framfærslusveitar voru útbúin sérstök vegabréf fyrir þá sem átti að flytja.

Hulda Pálína Vigfúsdóttir.

Hulda Pálína Vigfúsdóttir.

Hulda Pálína Vigfúsdóttir fæddist að Vorhúsum í Garði 20. júlí 1918. Það ár varð Ísland fullvalda ríki en yfir fjölskyldu hennar var þá lítil reisn. Þau tilheyrðu hópi þurfalinga og voru send hreppaflutningi til Reykjavíkur um hávetur. Hulda var yngst, aðeins nokkurra mánaða gömul. Að hluta til voru þau flutt í mjólkurbíl en að hluta til í opinni hestakerru. Foreldrar hennar, Jensína Valdimarsdóttir og Vigfús Þorkelsson, skildu árið 1924, hún og þrjú eldri systkini fylgdu móðurinn en ein systir fylgdi föður. Það var atvinnuleysi, verð á matvælum fór hækkandi, móðirin var heilsuveil og fátæktin mjög sár.

Þetta skeyti til borgarstjóra, dags. 15. nóvember 1918, varðar hreppaflutning á fjölskyldunni og segir að það skuli gera á ódýrasta máta.

Þetta skeyti til borgarstjóra, dags. 15. nóvember 1918, varðar hreppaflutning á fjölskyldunni og segir að það skuli gera á ódýrasta máta.

Á Borgarskjalasafni er til mikið af skjölum sem endurspegla hið sára hlutskipti þeirra fyrstu árin í Reykjavík. Það var erfitt að vera óvelkominn þurfalingur og eiga það stöðugt yfir höfði sér að vera endursendur fátækraflutningi til framfærslusveitar – en eiga þar ekki í nokkurt hús að venda.

Móðirin var „veik og bjargarlaus fyrir sig og fjögur börn sín, á aldrinum 6 - 11 ára“ og fátækrastjórn Reykjavíkur ákvað að krefjast flutnings á fjölskyldunni.Móðirin var „veik og bjargarlaus fyrir sig og fjögur börn sín, á aldrinum 6 - 11 ára“ og fátækrastjórn Reykjavíkur ákvað að krefjast flutnings á fjölskyldunni.

En lífið rétti Huldu líka góðar gjafir, létta lund og gott hjartalag. Í minningargrein sem tengdasonur hennar ritaði segir m.a.:

Lyndiseinkunn Huldu einkenndist af glaðværð og léttleika. Hún var félagslynd og naut þess að vera innan um fólk. Ég man eftir því að hún átti, í hópi fjölskyldunnar, til að þylja ljóð og syngja. Höfðu viðstaddir mikla ánægju af. Einstakt var hvað Hulda hélt mikilli tryggð við vinkonur sínar, jafnvel þær sem hún hafði kynnst á unglingsárum. Hún hafði samband við þær í síma fram á síðasta dag. Börnum sínum og barnabörnum fylgdist hún vel með og átti þá ósk að þeim farnaðist vel. Ef eitthvað bar út af í þeim efnum kom það við hennar viðkvæma hjarta. Hún reyndist þá hin góða amma sem með kærleika sínum veitti skjól og breiddi yfir allar misgjörðir.

Texti: Sigrún Jóhannesdóttir.

Heimild
Borgarskjalasafn Reykjavíkur – Þurfamannaævir – utansveita nr. 843. A. 2739.

Þetta efni er frá Borgarskjalasafni Reykjavíkur.