Umönnun sjúkra í spænsku veikinni 1918

Í skjalasöfnunum leynast margar áhugaverðar heimildir sem jafnvel enginn hefur skoðað. Hér sjást „Fylgiskjöl v. kostnaðar vegna inflúenzu 1918 (hjúkrunarnefndin) og er þar margt áhugavert að finna.“ Borgarskjalasafn Reykjavíkur A-3151.
Spænska veikin svokallaða kom skyndilega til Íslands í október 1918, líklega með skipum að utan. Hún lagðist þungt á íbúa höfuðborgarsvæðinu og fleiri stöðum í nágrenninu, breiddist hratt út og náði námarki þremur vikum síðar. Áður en sex vikur voru liðar höfðu um 500 manns látist af völdum spænsku veikinnar, þar af um helmingur í Reykjavík.

Skýrsla til hjúkrunarnefndar um störf Valdimars Kr. Árnasonar og þriggja manna. Í henni sést meðal annars álagið og hvað erfitt var að útgefa hesta fyrir hestvagna til að flytja sjúka og látna.

Skýrsla til hjúkrunarnefndar um störf Valdimars Kr. Árnasonar og þriggja manna. Í henni sést meðal annars álagið og hvað erfitt var að útgefa hesta fyrir hestvagna til að flytja sjúka og látna.
Talið er að um tveir þriðju bæjarbúa í Reykjavík hafi veikst og hafði þetta margháttaðar afleiðingar bæði til skamms tíma og til lengri tíma. Menntaskólanum og Iðnskólanum var lokað, Morgunblaðið hætti að koma út og samgöngur lágu að miklu leiti niðri. Ekki voru margir á ferli. Stöðugt örtröð var í lyfjabúðum og sjúkrahúsin tvö höfðu ekki undan. Mörg börn misstu foreldra sína.

Reikningur fyrir vinnu við eldhúsið í Barnaskólanum. Öllum bæjarbúum var boðið að fá þar hafraseyðing, auk þess sem líklega hefur verið eldað fyrir sjúklinga sem lágu sjúkraleg í Barnaskólanum. Yfir 100 manns voru lagðir þar inn og lést um þriðjungur þeirra.
Landsstjórnin, í samráði við borgarstjóra og lögreglustjóra Reykjavíkur, fól sérstakri hjúkrunarnefnd að vinna að því að nauðstöddum íbúum bæjarins væri veitt hjálp vegna inflúenzunnar”. Nefndin skipti bænum í 13 hverfi og setti sérstakan eftirlitsmann yfir hvert þeirra. Til að bregðast við skorti á hjúkrunarrýmum var Barnaskóla Reykjavíkur (Miðbæjarskólanum) breytt í sjúkraskýli. Af 105 sjúklingum sem voru fluttir þangað létust 35. Þá var fólki boðið að koma í barnaskólann og fá ókeypis hafraseyði og annan mat.

Tímaskráning fyrir vinnu við matreiðslu í Barnaskólanum meðan inflúensan var í hámarki og Hjúkrunarnefnd borgarinnar hefði tekið yfir skólann fyrir sjúka. Allir voru á 12 og 16 tíma vöktum alla daga umræddrar viku.
Í dagblöðum frá þessum tíma eru ótrúlegar lýsingar á ástandinu í bænum og afleiðingum spænsku veikinnar. Hér er eitt dæmi um lýsingarnar:
Í dag verður sett á stofn í Barnaskólanum barnahæli. Er ætlunin að veita þar viðtöku umhirðulausum börnum, hjúkra þeim og gæta þeirra meðan foreldrarnir eru sjúkir. Er megn þörf á þessari deild. Fjölda mörg börn eru í vanhirðu vegna þess að enginn er til að gæta þeirra heima. Sum hafa mist bæði föður og móður og eiga engann að. … á einu heimildi eru 7 börn hjá sjúkri móður. … Í einu húsi var komið að konu látinni í rúmi sínu, en tvö ungbörn láu fyrir ofan hana í rúminu, og faðirinn dauðveikur með óráði í öðru rúmi í herberginu.
(Morgunblaðið 18. nóv. 1918).
Hjúkrunarnefndin átti erfitt með að fá fólk til starfa í aðhlynningu. Þetta kemur glögglega fram í skýrslum og í auglýsingum eftir starfsmönnum. Mikið álag var á þeim sem voru við störf, jafn á 16 tíma vöktum. Þrátt fyrir að fáliðað væri og mikið neyðarástand er áhugavert að sjá að formlegar tímaskráningar voru í gildi og sömuleiðis bókhald hjúkrunarnefndarinnar skipulegt og formlegt.
Borgarskjalasafn varðveitir mikið af skjölum Hjúkrunarnefndarinnar og eru þau skjöl aðgengileg á lesstofu safnsins.
Texti: Svanhildur Bogadóttir
Heimildir
Magnús Gottfreðsson (2008). Spænska veikin á Íslandi 1918. Lærdómur í læknisfræði og sögu. Læknablaðið 2008/94. Reykjavik. Sótt af: http://www.laeknabladid.is/media/tolublod/1399/PDF/f03.pdf.
„Fylgiskjöl v. kostnaðar vegna inflúenzu 1918 (hjúkrunarnefndin).“ BorgarskjalasafnReykjavíkur A-3151.
Vísir. 15. nóvember 1918, http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=1119256.
Morgunblaðið 18. nóvember 1918, http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=1203402.
Þetta efni er frá Borgarskjalasafni Reykjavíkur.