Íshögg í höfninni

Norræni skjaladagurinn 2018

Íshögg í höfninni

Hópur manna úti á ísnum við Reykjavíkurhöfn 1918. Esjan í baksýn.

Hópur manna úti á ísnum við Reykjavíkurhöfn 1918. Esjan í baksýn.

 

Frostaveturinn mikli árið 1918 hófst við snögg umskipti í veðrinu á Íslandi 5. janúar 1918. Skyndilega gerði norðanátt og hörkufrost. Á þrettándanum var frostið víða komið í 20 stig og fór kólnandi. Þann 21. janúar 1918 mældist 24,5 stiga frost í Reykjavík. Þetta er mesta frost sem þar hefur mælst. Í Reykjavík fraus allt vatn. Það fraus í brunnum, í þeim fáu lögnum sem voru komnar, það fraus á kömrum hjá fólki og kuldinn olli fólki margskonar erfiðleikum ekki síst í illa einangruðum húsum. Höfnin í Reykjavík fraus svo langt sem augað eygði og mörg skip voru föst í ísnum. Svo þykkur var hann að það var m.a. manngengt út í Viðey. Sú atvinnugrein að höggva ís, t.d. eins og tíðkaðist á Tjörninni, jókst að umfangi þar sem menn fóru út á ísinn til að reyna að höggva skipin laus svo þau kæmust út úr höfninni.

Úrklippa úr Morgunblaðinu 23. febrúar 1918.

Úrklippa úr Morgunblaðinu 23. febrúar 1918.

Í dagblaðinu Fram má lesa þann 19. janúar að

[F]rost hefir verið afarmikið um alt land að undanförnu. Höfnin í Rvík er svo lögð, að saga verður skipin út þaðan, og gengið er nú á ís frá Viðey og inn að Kleppi og eins yfir Skerjafjörð.

Þann 21. janúar hafði sjó lagt víða á Faxaflóa og sá hvergi í auðan sjó af Skólavörðuholti. 22. janúar var Ulne, frakkneskt flutningaskip, sem legið hafði höfninni að reyna að komast á haf út en gekk stirðlega og var fjöldi manna þar í vinnu við að höggva ísinn frá skipinu. En verkið sóttist seint því að ísinn var orðinn svo þykkur. Næstu daga var unnið við að höggva og saga ísinn í höfninni til þess að reyna að ryðja skipum braut en það var seinlegt.

Forsíða gjaldabókar Hafnarsjóðs 1918.

Forsíða gjaldabókar Hafnarsjóðs 1918.

Greiðsla Hafnarsjóðs fyrir íshögg af steinbryggjunni. 9. febrúar 1918.

Greiðsla Hafnarsjóðs fyrir íshögg af steinbryggjunni. 9. febrúar 1918.

Í tekju og útgjaldabók Hafnarsjóðs frá 1918 má finna færslu frá 11. febrúar sem vekur athygli en þar kemur fram að vinna við að höggva ís af steinbryggjunni hafi verið 45 krónur.

Texti: Andrés Erlingsson

Heimildir
Gjaldabók Hafnarsjóðs 1918. Borgarskjalasafn Reykjavíkur.
Ágúst Ólafsson. 100 ár frá frostavetrinum mikla. (2018, 4. janúar 2018) RÚV. Sótt af http://www.ruv.is/frett/100-ar-fra-frostavetrinum-mikla.
Fréttir (1918, 19. janúar) Fram. Sótt af http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=51987&pageId=960104&lang=is&q=H%F6fnin%20%EDs.
Dagbók (1918, 23. janúar) Morgunblaðið. Sótt af http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=98218&pageId=1202154&lang=is&q=frost.

Þetta efni er frá Borgarskjalasafni Reykjavíkur.