Vanhúsamálið á Njálsgötu janúar 1918

Kamrar voru um allan bæ í byrjun 20 aldar. Hér má sjá einn í garðinum við Lækjargötu 6B 1907.
Það er ekki ofsögum sagt að oft fær borgarstjórinn í Reykjavík hin ýmsu mál á borð til sín sem ekki aðeins geta verið miserfið til úrlausnar, eins og gjörla þekkist, en endurspegla ekki síst hina miklu flóru þeirra mála sem eiga upptök sín hjá borgurum bæjarins. Allir vita að árið 1918 er þekkt fyrir nokkur stór mál sem staðið hafa upp úr í sögunni eins og frostaveturinn mikla, gosið í Kötlu, Spænsku veikina og samþykkt fullveldis Íslands. En oft má einnig finna skjöl frá þessu ári sem snúa nær einstaklingnum en þjóðinni.
Í málasafni borgarstjóra má sjá hvernig ein af afleiðingum frostavetrarins mikla 1918 endurspeglast í bréfi sem sent var borgarstjóranum í Reykjavík þann 14. janúar 1918 af tveimur íbúum á Njálsgötu, þeim Guðmundi Kr. Bjarnasyni skipstjóra og Þorvaldi Eyjólfssyni stýrimanni. Bréfið hefst á því að þeir
kæra fyrir yður herra borgarstjóri í Reykjavík að nóttina milli hins 5 og 6. þ.m. [janúar] og hins 12. og 13 s.m. voru vanhúsin [þ.e. kamrar eða náðhús] hjá okkur ekki hreinsuð, og þó hefur verið auglýst…
en samkvæmt nefndri auglýsingu átti að hreinsa kamra við Njálsgötu á næturnar milli laugardaga og sunnudaga. Álykta þeir að seinni nóttina hafi það ekki verið gert vegna frosts en eru á því að fyrri nóttin hafi verið frostminni og því hæg heimatökin að hreinsa.
Þess má geta að á síðdegis þann 5. janúar var -7 stiga frost en á sunnudeginum 13. janúar var svo kalt að m.a. varð messufall í Fríkirkjunni vegna kuldans. En um morguninn var frostið í bænum -22,5 stig en fór í -19 stig síðdegis.
Lokaorð þessa kærubréfs eru sérstaklega áhugaverð en þar segir:
Vér treystum yður til að hlutast til að hreinsað verði hjá okkur hið bráðasta að hægt er og að slíkt ekki komi fyrir oftar að svo miklu leyti sem yður er mögulegt.
Klykkja þeir svo út með því að segja að þeir þykist eiga réttmætar kröfur til þess að verða ekki fyrir misrétti þar sem þeir standi skil á sínum opinberu gjöldum.
Já, það var greinilega „hart“ í ári á marga misjafna vegu árið 1918.
Texti: Andrés Erlingsson
Heimildir
Borgarskjalasafn Reykjavíkur. Málasafn borgarstjóra. Askja 809. Aðfnr. 3144.
Veðurfarsupplýsingar, https://nimbus.blog.is/blog/nimbus/entry/2208834/ .
Ljósmyndasafn Reykjavíkur. Magnús Ólafsson. MAÓ 200.
Þetta efni er frá Borgarskjalasafni Reykjavíkur.