Einkavæðing eður ei

„Að einkavæða…eða ekki einkavæða“? Í margbreytilegum rekstri hins opinbera er þetta oft stóra spurningin, Margar leiðir hafa t.d. verið farnar til að halda uppi almenningsamgöngum á höfuðborgarsvæðinu og sú nýjasta í þeim efnum er samkomulag um samgöngur á höfuðborgarsvæðinu til næstu fimmtán ára sem skrifað var undir þann 26. september síðastliðinn.

Einn fyrsti strætisvagninn í Reykjavík stendur við Fríkirkjuveg við Tjörnina 1933. Ljósmyndasafn Reykjavíkur.

Saga almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu hófst hins vegar árið 1931 þega hlutafélagið Strætisvagnar Reykjavíkur var stofnað þann í ágúst af 13 einstaklingum. Fyrsta ferðin var farin 31. október sama ár. Fyrstu árin var reksturinn á höndum hlutafélagsins, en árið 1944 keyptu bæjaryfirvöld í Reykjavík reksturinn. Strætó bs. hóf síðan starfsemi hinn 1. júlí 2001 og tók við verkefnum Strætisvagna Reykjavíkur og AV. Þannig hefur rekstur strætisvagna verið ýmist í höndum einkaaðila eða hins opinbera.

Strætisvagn stendur við Klepp. Ein af fyrstu leiðum Strætisvagna Reykjavíkur. Borgarskjalasafn Reykjavíkur
Strætisvagn stendur við Klepp. Ein af fyrstu leiðum Strætisvagna Reykjavíkur. Borgarskjalasafn Reykjavíkur.

En hugmyndir um einkarekna strætisvagna má finna enn lengra aftur. Í maí 1923 var samþykkt að athuga hvort heppilegt væri að Reykjavíkurbær hefði einkaréttindi til rekstrar á bifreiðum sem tækju meira en 7-8 manns. En ekkert varð af því.

Bréf til bæjarstjórnar frá Finni Ólafssyni heildsala 4. október 1926
Bréf til bæjarstjórnar frá Finni Ólafssyni heildsala 4. október 1926.

Í málasafni borgarstjóra má finna athyglisvert skjal til bæjarstjórnar Reykjavíkur frá Finni Ólafssyni heildsala í Reykjavík sem dagsett er 4. október 1926. Þar vekur hann athygli á þeirri þörf að í Reykjavík sé boðið upp á stöðugar ferðir milli bæjarhluta. Býður hann bæjarstjórninni að útvega einn eða fleiri vagna (Omnibus) frá Englandi til að leysa úr málinu. Þá kemur fram að hafni bæjarstjórnin hins vegar þessu tilboði hans þá færi hann fram á að bæjarstjórnin veitti honum einkaleyfi til að flytja inn og starfrækja slíka vagna í næstu 25 árin. Því er til að svara að bæjarstjórnin sendi svarbréf tilbaka þann 19. nóvember sama ár þar sem hún sá sér ekki fært að sinna þessu tilboði og tjáði Finni jafnframt, að það væri ekki í valdi bæjarstjórnarinnar að veita slíkt einkaleyfi. Geta má líkum að því að ef slíkt leyfi hefði verið veitt, hefði saga strætisvagna í Reykjavík orðið á allt annan veg.

Bréf til bæjarstjórnar frá Finni Ólafssyni heildsala 4. október 1926
Bréf til bæjarstjórnar frá Finni Ólafssyni heildsala 4. október 1926.

En í stað þess, var hlutafélag stofnað árið 1931 eins og segir frá í upphafi.

Andrés Erlingsson

Heimildir

  • Málasafn borgarstjóra – Strætisvagnar Reykjavíkur 1925-4947, I. Askja 893. Aðfnr. 3074.
  • Bréf til bæjarstjórnar frá Finni Ólafssyni heildsala, 4. október 1926.
  • Bréf til Finns Ólafssonar frá bæjarstjórn Reykjavíkur, 19. nóvember 1926.
  • Morgunblaðið, 13. júlí 1993 bls. 42.