Baðhús í Reykjavík

Saga baðhúsa í Reykjavík hefst árið 1895 þegar að Baðhúsfélag Reykjavíkur (eða Baðhúsfjelag Reykjavíkur) var stofnað þann 21. janúar um leið og fyrsta baðhús í Reykjavík. Stofnendur voru Guðbrandur Finnbogason konsúll og Guðmundur Björnsson læknir. Voru kosnir í stjórn þess félags auk stofnenda, dr. J. Jónassen, Guðmundur Magnússon læknaskólaritari og Björn Jónsson ritstjóri. Félagið tók á leigu húsnæði fyrir baðhúsið í norðurenda Prentsmiðjuhússins í Aðalstræti 9. Fékk félagið leyfi til að nota vatn úr prentsmiðjupóstinum með því að taka vatn með sogpípum neðanjarðar í húsið. En reksturinn gekk erfiðlega og þann 23. október 1897 var haldin stjórnarfundur um hvort slíta ætti félaginu. Ákveðið var að reyna að þrauka lengur en Baðhúsið hætti svo starfsemi árið 1898 og var ástæðan meðal annars sögð síðar „…að stjórn félagsins og vatnsfælni bæjarbúa eigi mesta sök á því.“

Baðhús í Reykjavík
Nefndarálit K. Zimsen, Halldórs Jónssonar og Kristjáns Þorgrímssonar um kaup bæjarstjórnar á Baðhúsinu 29. janúar 1912.
Baðhús í Reykjavík
Nefndarálit K. Zimsen, Halldórs Jónssonar og Kristjáns Þorgrímssonar um kaup bæjarstjórnar á Baðhúsinu 29. janúar 1912.

Hannes Ó. Magnússon, fyrrverandi póstmeistari keypti áhöld Baðhússins af félaginu fyrir 350 kr. og leigði húsnæðið og hélt áfram starfsemi þess. En það stóð ekki lengi og árið 1899 keypti Sigurður Thoroddsen ingeniör (verkfræðingur) baðáhöldin og reisti nýtt baðhús suður með Tjörninni austanmegin. Sá rekstur hætti svo vorið 1903 því það svaraði ekki kostnaði og hafði Sigurður þurft að borga með því nær frá upphafi.

Baðhús í Reykjavík
Skrá yfir innanstokksmuni Baðhússins 16. apríl 1912.

Í grein sem birtist í Nýja Íslandi 1. apríl 1905 var kallað sérstaklega eftir því að bæjarstjórnin kæmi upp baðhúsi að nýju enda „[a]llir, sem reynt hafa, vita þó, hve heilsusamlegt og notalegt það er, að ganga í bað að lokinni vinnu, og hve maður er léttur i lund og lipur á fæti eftir á.“ Svo virðist sem þeir félagar Eggert Claessen aðstoðarmaður í ráðuneytinu og Jón Þorláksson verkfræðingur hafi tekið þetta til sín. 27. desember 1905 stofnuðu þeir hlutafélag, er þeir nefndu h.f. Baðhús Reykjavíkur, gegn framlagi úr bæjarsjóði. Í stjórn félagsins voru Eggert og Jón auk Sigurðar Briem póstmeistara. Bæjarstjórnin samþykkti á fundi 21. desember sama ár að veita 1000 kr. styrk á ári til Baðhússins fyrstu 3 árin, með ýmsum skilyrðum um eftirlit af hálfu bæjarstjórnar auk þess að heit steypiböð yrðu ekki seld dýrari en 15 aura og heitar kerlaugar væru ekki dýrari en 40 aura, og að börn sem njóta ókeypis kennslu í Barnaskólanum fengju ókeypis böð, að minnsta kosti tvisvar á vetri. Keyptu þeir lóðina Kirkjustræti 10 af Kristjáni Ó Þorgrímssyni konsúl og reistu þar hið nýja Baðhús. Var það svo opnað almenningi 12. febrúar 1907. Í Baðhúsinu var engin sundlaug, heldur aðeins aðstaða til líkamsþvottar. Í því voru m.a. forstofa, biðstofa, 2 kerlaugar, 6 steypibaðsklefar (2 þeirra ætlaðir konum) og einn útbúinn fyrir gufuböð. Einnig mun á tímabili hafa þar verið rekin rakarastofa. Vatnið kom úr brunni utan við húsið og hitað upp með gufukatli. Baðhúsið var fyrst opið alla daga nema miðvikudaga og laugardaga.

Baðhús í Reykjavík
Bréf til bæjarstjórnar Reykjavíkur 29. október 1909.

Árið 1912 kaupir bæjarstjórn Reykjavíkur svo baðhúsið og rekur það fram til 1965.

Í auglýsingu frá 1917 stendur í Morgunblaðinu að í Baðhúsi Reykjavíkur geti maður farið í kerlaug, steypiböð og gufuböð. Sama ár segir í Morgunblaðinu þegar birtir eru rekstrareikningar Baðhússins:

Fólk er að vakna til meðvitundar um það, að það er engu siður nauðsynlegt að þvo skrokkinn en t. d. hendur og andlit. Hvorttveggja er jafnnauðsynlegt fyrir heilsuna.

Baðhús í Reykjavík
Sjóðbók Baðhússins 1912-1919 – 2. janúar til 1. maí 1915.

En þörf fyrir sérstakt baðhús fór minnkandi með árunum enda baðaðstaða komin í flest hús og starfsemi Baðhúss Reykjavíkur lauk árið 1966, húsið sjálft var svo rifið 25. apríl 1967.

Andrés Erlingsson

Heimildir

  • Málasafn borgarstjóra Askja nr. 681 – Aðfnr. 2987.
    • Bréf til bæjarstjórnar Reykjavíkur 29. október 1909.
    • Nefndarálit um tilboð á kaupum Baðhússins til bæjarstjórnar Reykjavíkur 29. janúar 1912.
    • Skrá yfir innanstokksmuni Baðhússins 16. apríl 1912.
  • Sjóðbók Baðhússins 1912:1919 – Aðfnr. 1562.
  • Ísafold, 26. janúar 1895.
  • Reykvíkingur, 4 tbl. 1. apríl 1895.
  • Ísland, 22. tbl. 31. maí 1895.
  • Ísland, 8. tbl. 30. apríl 1899.
  • Nýja Ísland, 4. tbl. 1. apríl 1905.
  • Lögrétta, 7. tbl. 13. febrúar 1907.
  • Þjóðólfur, 23. maí 1902.
  • Bjarki, 31. tbl. 21. ágúst 1903.
  • Lögrétta, 1. tbl. 1. janúar 1906.
  • Morgunblaðið, 29. júlí 1916.
  • Morgunblaðið, 26. apríl 1967.