Óþekkta stúlkan á Karlsefni

Óþekkta stúlkan á Karlsefni
Samantekt lögreglu um skýrslutöku yfir stúlkunni.

Á Borgarskjalasafni Reykjavíkur er varðveitt skjalasafn lögreglunnar í Reykjavík. Í safninu kennir ýmissa grasa en það inniheldur meðal annars skjöl frá útlendingaeftirliti lögreglunnar. Meðal skjala útlendinga-eftirlitsins eru skjöl um afskipti lögreglunnar af útlendingum sem hingað komu til lands í leyfisleysi á árunum í kringum seinna stríð.

Óþekkta stúlkan á Karlsefni
Símskeyti frá Þórarni Olgeirssyni, ræðismanni Íslands í Bretlandi, til útlendingaeftirlits lögreglunnar að tilkynna rétt deili á stúlkunni.

Í sumum tilfellum ræðir um útlendinga sem flúið hafa hingað til lands í von um að fá hér dvalarleyfi en ekki haft erindi sem erfiði. Þessir einstaklingar eru yfirleitt einir til frásagnar um uppruna sinn og aðstæður en sögur þeirra eru oft á tíðum ótrúlegar. Saga þessara einstaklinga birtist í skýrslum og yfirheyrslum lögreglunnar þar sem gætir oft mikillar tortryggni. Þrátt fyrir að erfitt sé að slá nokkru föstu um sannleiksgildi frásagna þessara einstaklinga eru sögur þeirra mjög áhugaverðar.

Óþekkta stúlkan á Karlsefni
Bréf nafnlausa sjómannsins. Rithandarsýnishorn stúlkunnar er uppi í hægra horni skjalsins.

Meðal einstaklinga sem útlendingaeftirlit lögreglunnar hafði afskipti af var ung stúlka sem kom hingað til lands sem farþegi með b/v Karlsefni frá Englandi 4. apríl 1951. Stúlkan hafði engin skilríki til þess að sanna hver hún væri. Við yfirheyrslu lögreglu kvaðst hún vera íslensk og hafa farið til Englands ári áður til náms við Cambridge-háskóla. Það vakti grunsemdir lögreglu að stúlkan virtist hvorki skilja íslensku né þekkja nokkurn mann hér á landi. Þá gat hún engar upplýsingar gefið um móður sína eða uppeldi sitt.

Óþekkta stúlkan á Karlsefni
Tíminn 7. apríl 1951.

Við frekari yfirheyrslur breytti stúlkan alloft framburði sínum, til dæmis á þann veg að hún hafi flutt kornung til Englands og að hún hafi ferðast til Þýskalands og hitt þar Adolf Hitler og upplifað loftárásir bandamanna á Hamborg. Í ljósi þess hve litlar skýringar stúlkan gat gefið á högum sínum og hversu framburður hennar var á reiki fór útlendingaeftirlitið fram á það fyrir sakadómi Reykjavíkur að stúlkan yrði úrskurðuð á „geðveikrahælið Klepp“ til rannsóknar. Svo fór að áður en sakadómur úrskurðaði um vistun stúlkunnar var hún send til baka til Englands en ræðismanni Íslands í Bretlandi, Þórarni Olgeirssyni, hafði tekist að hafa uppi á réttu nafni hennar.

Óþekkta stúlkan á Karlsefni
Vísir 16. apríl 1951.

Fjallað var um mál óþekktu stúlkunnar á Karlsefni í fréttablöðum á sínum tíma, bæði hérlendis og í Bretlandi, og kepptust menn við að bara kennsl á hana. Mjög áhugavert bréf í tengslum við mál stúlkunnar hefur varðveist í skjalasafni lögreglunnar. Bréfið, sem er nafnlaust, barst lögreglunni frá íslenskum sjómanni sem taldi sig þekkja stúlkuna. Sjómaðurinn taldi hana vera breska stúlku sem „gaf sig mjög að“ Íslendingum þar í landi tveimur árum áður. Með bréfi sjómannsins fylgdi rithandarsýnishorn stúlkunnar, en hún hafði skrifað nafn sitt og heimilisfang fyrir hann á bréfsnifsi. Bréfið er áhugavert fyrir þær sakir að sjómaðurinn lýsir því yfir að hann vilji ekki blanda nafni sínu í málið og bendir lögreglu að láta þess getið í blöðunum óski hún eftir frekari upplýsingum frá honum.

Óþekkta stúlkan á Karlsefni
Vísir 16. apríl 1951.

Höfundur: Þórir Helgi Sigvaldason

Heimildir

  • www.timarit.is.
  • Skjalasafn lögreglunnar í Reykjavík. Askja 282: „Skjöl frá Útlendinga-eftirliti, dvalarskírteini, dvalar- og atvinnuleyfi o.fl. 1937-1951“.