Á árum áður þegar flest hús í Reykjavík vorum kynt með eldivið var mikil þörf fyrir starf sótara til að halda reykháfum hreinum, en með tilkomu hitaveitu um miðja síðustu öld dró jafnt og þétt úr þörfinni fyrir sótara.

Erindisbrjef fyrir sótara Jens Jóhannesson
Erindisbrjef fyrir sótara Jens Jóhannesson.

Í reglum um starf sótara frá 1876 kemur fram að reykháfa og kamínur skuli hreinsa þrisvar á ári í janúar, apríl og október og skal ljúka verkinu á þremur vikum. Í erindisbréfi Jens Jóhannessonar frá 1883 hefur verið bætt við að hreinsa reykháfa einnig í júlí mánuði ár hvert. Samkvæmt reglunum ber sótara að halda löggilta sótarabók þar sem hreinsanir og borgun fyrir þær eru skráðar og skal hann þegar hreinsun er lokið afhenda slökkviliðsstjóra bókina sem skal rannsaka hana nákvæmlega. Gjald fyrir hreinsun á kamínum var 50 aurar, og hreinsun á reykháfum var 33 aurar fyrir torfbæi og 66 aurar fyrir hvern reykháf í einloftuðum húsum, tvöfalt gjald var fyrir tvíloftuð hús og þrefalt gjald fyrir þríloftuð hús. Í reglunum frá 1876 kemur fram að fyrst um sinn skuli vera einn sótari í bænum og var honum ekki heimilt að yfirgefa umdæmi kaupstaðarins nema með leyfi lögreglustjóra.

Reglur um hreinsun reykháfa og sótarstörf í júlí 1876
Reglur um hreinsun reykháfa og sótarstörf í júlí 1876.

Í erindisbréfi Jens Jóhannessonar frá 1883 eru skyldur hans og réttindi sambærileg og kemur fram í reglunum frá 1876 en í erindisbréfinu segir einnig um starf sótarans: „Í framantjeðu starfi ber honum að sýna sig árvakran, algáðan, og verkvandan, sem ærukærum fjelagslim og opinberum þjóni vel sæmir.“

Eftir að hitaveitan var tekin í notkun í Reykjavík árið 1945 fór þörfin fyrir sótara stöðugt minnkandi og í dagblaðinu Vísi frá 29. júlí 1977 kemur fram að síðasti fastráðni sótari Reykjavíkurborgar hafi þá nýlega látið af störum. Starf sótara hefur þó ekki alveg lagst af og í Morgunblaðinu 29. október 2015 kemur fram að með aukinni velmegun hafi þörfin fyrir sótara aukist aftur og það sé nú fyrst og fremst vegna notkunar arna í heimahúsum og á veitingastöðum, sem óskað sé eftir þjónustu sótara.

Sótarabók 1877-1884
Sótarabók 1877-1884.

Á Borgarskjalasafni Reykjavíkur eru varðveittar átta Sótarabækur frá árunum 1836 til 1912 þar af eru fjórar bækur frá því fyrir 1900 aðgengilegar á vef safnsins undir Elstu skjöl Reykjavíkur. Einnig eru varðveitt skjöl tengd sóturum m.a. Reglur um hreinsun reykháfa og sótarastörf frá júlí 1876 (Aðfnr. 2225, örk 3) og Erindisbrjef fyrir sótara Jens Jóhannesson (Aðfnr. 2226, örk 1), hvort tveggja aðgengilegt á vef safnsins.
Gísli Skagfjörð

Heimildir

  • Bréf til og málefni bæjarstjórnar 1874-1876, Aðfnr. 2225: Örk 3: Reglur um hreinsun reykháfa og sótarstörf í júlí 1876.
  • Bréf til og málefni bæjarstjórnar 1880-1902, Aðfnr. 2226: Örk 1: Bréf og skjöl, m.a. Erindisbrjef fyrir sótara Jens Jóhannesson.
  • Morgunblaðið 29. október 2015.
  • Vísir 29. júlí 1977.